Erlent

Réttarhöld hefjast á ný yfir Julian Assange

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Julian Assange sést hér koma fyrir dóm í London í apríl í fyrra.
Julian Assange sést hér koma fyrir dóm í London í apríl í fyrra. Getty/Jack Taylor

Réttarhöld hefjast að nýju í dag í London yfir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, en tekist er á um það hvort það skuli framselja hann til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ára fangelsi. Áætlað er að réttarhöldin taki fjórar vikur.

Bandarísk yfirvöld hafa ákært Assange fyrir brot á njósnalögum og samsæri um tölvuinnbrot í tengslum við uppljóstranir Wikileaks úr bandarískum leyniskjölum árið 2010.

Að því er fram kemur í frétt Guardian segjast lögfræðingar Assange ekki hafa haft nægan tíma til að fara yfir ákæruna á hendur honum. Þá segja þeir málið pólitískt og að verið sé að sækja Assange til saka því Wikileaks hafa uppljóstrað um stríðsglæpi og mannréttindabrot Bandaríkjastjórnar.

Assange hefur verið í haldi í Balmarsh-fangelsinu í London allt frá því hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í London í apríl í fyrra, en réttarhöldunum vegna framsalskröfunnar hafði verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Búist er við því stuðningsmenn Assange mótmæli fyrir utan dómstólinn í London í dag og er búist við því að maki Assange og barnsmóðir, Stella Moris, verði þar á meðal.

Moris hefur sagt frá því að heilsu Assange hafi hrakað mikið í fangelsinu og að hún óttist að börnin þeirra vaxi úr grasi án þess að sjá föður sinn. Þá segir Moris, sem sjálf er lögfræðingur, að mál Assange hafi haft mikil áhrif bæði á tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla.

„Þetta mál er árás á blaðamennsku. Ef hann verður framseldur til Bandaríkjanna fyrir að birta óþægilegan sannleik um stríðin í Írak og Afganistan þá er verið að setja fordæmi og sérhver breskur blaðamaður gæti verið framseldur í framtíðinni,“ segir Moris.


Tengdar fréttir

Segja Assange sæta illri meðferð í fangelsi

Lögmenn stofnanda Wikileaks segja að hann hafi ítrekað verið handjárnaður og berstrípaður eftir fyrsta dag réttarhalda um framsal hans til Bandaríkjanna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×