Sara Björk Gunnarsdóttir, eini leikmaðurinn sem lenti í 1. og 2. sæti í Meistaradeild Evrópu í ár, er ekki í úrvalshópi keppninnar sem nefnd á vegum UEFA hefur nú valið.
Sara hóf keppnina með Wolfsburg og lék þrjá leiki með þýska liðinu, þar af tvo í byrjunarliði, og skoraði eitt mark. Eftir að hafa skipt yfir til Lyon í sumar, áður en 8-liða úrslitin hófust, lék hún svo leikina þrjá sem Lyon átti eftir.
Hún lék seinni hálfleikinn í 2-1 sigri á Bayern München, allan leikinn í sigri á PSG í undanúrslitum, og allan leikinn í 3-1 sigrinum á Wolfsburg þar sem hún skoraði síðasta markið og var einn besti leikmaður úrslitaleiksins.
Að minnsta kosti átta miðjumenn léku hins vegar betur í keppninni að mati valnefndar UEFA. Það eru þær Ingrid Engen, Svenja Huth og Alex Popp úr Wolfsburg, Saki Kumagai, Amel Majri og Dzsenifer Marozsán úr Lyon, Kheira Hamraoui úr Barcelona og Kim Little úr Arsenal.
Hin þýska Marozsán er nú í úrvalshópnum sjötta tímabilið í röð. Wendie Renard, fyrirliði Lyon, er í hópnum fimmta árið í röð og þær Pernille Harder og Lucy Bronze nú fjórða árið í röð.
Úrvalshópurinn
Markmenn
Sarah Bouhaddi (Lyon)
Christiane Endler (Paris Saint-Germain)
Sandra Paños (Barcelona)
Varnarmenn
Lucy Bronze (Lyon)
Paulina Dudek (Paris Saint-Germain)
Kathrin Hendrich (Bayern/Wolfsburg)
Dominique Janssen (Wolfsburg)
Sakina Karchaoui (Lyon)
Wendie Renard (Lyon)
Miðjumenn
Ingrid Engen (Wolfsburg)
Kheira Hamraoui (Barcelona)
Svenja Huth (Wolfsburg)
Saki Kumagai (Lyon)
Kim Little (Arsenal)
Amel Majri (Lyon)
Dzsenifer Marozsán (Lyon)
Alex Popp (Wolfsburg)
Sóknarmenn
Delphine Cascarino (Lyon)
Kadidiatou Diani (Paris Saint-Germain)
Caroline Graham Hansen (Barcelona)
Pernille Harder (Wolfsburg)
Jenni Hermoso (Barcelona)
Marie-Antoinette Katoto (Paris Saint-Germain)