Íbúar stórs svæðis í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum gætu verið án rafmagns og rennandi vatns í nokkrar vikur, eftir að fellibylurinn Lára reið yfir.
Samkvæmt frétt BBC af málinu voru yfir 400.000 manns án rafmagns í morgun og um 200.000 voru þá án rennandi vatns á heimilum sínum. John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, segir eyðilegginguna sem Laura olli hafa teygt sig langt norður inn í ríkið. Áhrifa óveðursins gætti mest við strendur ríkisins í suðri.
Í Bandaríkjunum hafa 14 látist í veðurofsanum, tíu í Louisiana en fjögur í Texas. Þá létust 31 á Haítí þegar óveðrið reið þar yfir.
Alríkisstjórnin hefur lýst yfir neyðarástandi í fjölda sýsla í Louisiana. Með því hefur mátt veita auknu fé í neyðaraðstoð til þeirra svæða sem hvað verst hafa komið út úr óveðrinu.