Joe Biden tók formlega við tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaframboðs í nótt. Í ræðu sinni hét hann því að bjarga Bandaríkjunum frá usla forsetatíðar Donald Trump og koma landinu aftur í þá leiðtogastöðu sem það hefur verið í á heimsvísu.
Biden kallaði eftir því að Bandaríkjamenn kæmu saman og sigruðust í sameiningu á Trump, án þess þó að nefna hann einu sinni á nafn.
„Núverandi forseti hefur baðað Bandaríkin í myrkri of lengi. Of mikil reiði, of mikill ótti, of mikil sundrung,“ sagði Biden. „Hér og nú, heiti ég því: Ef þið færið mér forsetaembætti, mun ég draga fram það besta í okkur, ekki það versta. Ég verð bandamaður ljóssins, ekki myrkursins.“
Biden gagnrýndi Trump harðlega fyrir að neita að taka ábyrgð á gjörðum sínum og sagði hann neita að leiða þjóðina.
„Hann vaknar á hverjum deyi í þeirri trú að starfið snúist eingöngu um hann sjálfan. Aldrei um ykkur,“ sagði Biden og benti á myndavélina. Alla ræðu hans má sjá hér.
Þetta hefur verið rauði þráðurinn í gegnum alla ræðurnar á landsfundi Demókrata. Það að kosningarnar í nóvember snúist um sál Bandaríkjanna og lýðræðið sjálft sé í húfi.
Sjá einnig: Helltu sér yfir Trump og hvöttu fólk til að kjósa
Auk Biden fluttu aðrir forsetaframbjóðendur flokksins, sem töpuðu fyrir Biden í forvali, einnig ræður. Þeirra á meðal voru Cory Booker og Pete Buttigieg. Allir mótframbjóðendur Biden í Demókrataflokknum lýstu einnig yfir stuðningi við hann.
Innan um ræðurnar fluttu þeir John Legend og Common lagið Glory.
Grínistinn Sarah Cooper gerði svo léttvægt grín að Trump.