Troy Deeney, framherji Watford, skoraði eitt marka liðsins í ótrúlegum 3-0 sigri á verðandi Englandsmeisturum Liverpool í gær. Hann viðurkenndi eftir leik í viðtali við Sky Sports að leikplan hans hafi verið að leggjast á Dejan Lovren frekar en Virgil van Dijk.
Ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem Van Dijk er með betri miðvörðum í heimi um þessar myndir á meðan Lovren er af mörgum ekki talinn nægilega góður fyrir Liverpool liðið.
Deeney var frábær í leiknum á meðan Lovren átti vægast sagt slæman dag.
Sjá einnig:Ótrúlegt gengi Liverpool á enda
„Van Dijk er öflugur leikmaður og meðal bestu varnarmanna í heiminum í dag. Hann er stór, sterkur ásamt því að vera fljótur. Þess vegna ákvað ég að sækja nær eingöngu á Lovren, með fullri virðingu fyrir honum," sagði Deeney til að mynda eftir leik.
Watford vann eins og áður sagði leikinn 3-0 og Deeney skoraði ásamt því að leggja upp. Það var hins vegar hinn ungi Ismaïla Sarr sem stal fyrirsögnunum en hann skoraði hin tvö mörk leiksins. Það síðara var mjög snyrtilegt en hann lyfti boltanum þá yfir Alisson í marki Liverpool eftir að Deeney hafði sent knöttinn í gegnum vörn Liverpoo.

