Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, gæti verið á leiðinni í leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald eftir leik Everton og Manchester United í gær.
Ancelotti var allt annað en sáttur með að mögulegt sigurmark Everton liðsins í þessu 1-1 jafntefli var dæmt af vegna rangstöðu. Enska knattspyrnusambandið hefur nú kært hann fyrir háttalag sitt.
Dominic Calvert-Lewin skoraði markið en Gylfi Þór Sigurðsson var dæmdur rangstæður af Varsjánni vegna þess að hann sat fyrir framan markvörðinn David de Gea. Carlo Ancelotti hélt því fram að Gylfi hafi ekki skyggt á markvörðinn af því að hann sat á grasinu.
Everton boss Carlo Ancelotti will find out by Wednesday whether he will be punished for being sent off against Manchester United.
— BBC Sport (@BBCSport) March 2, 2020
More: https://t.co/A7iKVpzuku#bbcfootballpic.twitter.com/hrGEhmLUue
Þegar Carlo Ancelotti fór til að þakka dómaranum Chris Kavanagh fyrir leikinn þá las hann yfir honum í staðinn og hætti ekki fyrr en Kavanagh lyfti rauða spjaldinu.
Aganefnd enska knattspyrnusambandsins mun bíða eftir skýrslu frá Chris Kavanagh dómara áður en hún ákveður refsinguna.
Ancelotti gæti fengið viðvörun, sekt eða að hann verður dæmdur í leikbann. Hann sagði sjálfur eftir leik að hann hafi ekki verið dónalegur við dómarann.
Verði Carlo Ancelotti dæmdur í leikbann þá missir hann af leik Everton á móti Chelsea um næstu helgi en Ancelotti gerði Chelsea að enskum meisturum og enskum bikarmeisturum tímabilið 2009-10.