Tammy Abraham, sóknarmaður Chelsea, vann til tvennra verðlauna á Fótboltaverðalaunahátíð Lundúna sem haldin voru í gær. Hann var bæði valinn besti leikmaður ársins og besti ungi leikmaður ársins. Aðeins þeir sem spila með liðum frá Lundúnaborg koma til greina í valinu.
Tammy er 22 ára og hefur skorað 15 mörk á tímabilinu og varð fyrstur frá upphafi til að vinna bæði þessi verðlaun á sama ári. Aðrir sem voru tilnefndir til besta leikmanns ársins voru Jorginho liðsfélagi Tammy hjá Chelsea og Heung-min Son hjá Tottenham.
Þá hafði Englendingurinn efnilegi betur gegn Mason Mount og Fikayo Tomori, liðsfélögum sínum, og Gabriel Martinelli frá Arsenal í baráttunni um að vera valinn besti ungi leikmaðurinn.
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var tilnefndur sem stjóri ársins ásamt Roy Hodgson þjálfara Crystal Palace, en það var stjóri Brentford í ensku b-deildinni, Thomas Frank, sem hreppti verðlaunin.
Ben Foster var valinn markvörður ársins, en hann ver markið hjá Watford í ensku úrvalsdeildinni. Vivianne Miedema var valin leikmaður ársins í kvennaflokki annað árið í röð, en hún leikur með Arsenal.
Tammy Abraham bæði valinn sá besti og sá efnilegasti
