Innlent

Tvö innanlandssmit og neyðarstigi lýst yfir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hjúkrunarfræðingur í hlífðarbúningi.
Hjúkrunarfræðingur í hlífðarbúningi. vísir/vilhelm

Sex ný kórónuveirusmittilfelli hafa verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í dag. Þau eru því alls orðin 43 talsins. Þar af eru tvö svokölluð innanlandssmit, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Öll þau sem hafa smitast eru við góða heilsu. 

Því hefur verið tekin ákvörðun um að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, segir þetta þó hafa engin áhrif á almenning. Þetta lúti frekar að um 200 stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að herða eigið skipulag. 

Þessi tvö innanlandssmit greindust í tveimur einstaklingum, á sextugs- og sjötugsaldri, sem höfðu verið í tengslum við fólk sem nýkomið var frá margumræddum skíðasvæðum í Evrópu. Norður-Ítalía og Austurríki hafa verið flokkuð sem áhættusvæði og er til skoðunar að flokka Alpana alla sem svæði með mikla smithættu.

Víðir segir að nú standi yfir smitrakning í tilfelli innlendu smitanna. Þau komu bæði upp á höfuðborgarsvæðinu. Ekki sé hægt að útiloka á þessu stigi máls að einstaklingarnir tveir hafi verið úti á meðal annars fólks áður en smit þeirra uppgötvaðist.

Ekki sé búið að taka ákvörðun um að setja á samkomubann, en Víðir segir að það hljóti þó að fara að „styttast í þann tímapunkt.“ Almannavarnir hafi verið í nánu samtali við íþróttahreyfinguna í þessum efnum. 

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira
×