Hashem Abedi, bróðir mannsins sem sprengdi sig í loft upp þegar fjöldi fólks var að yfirgefa tónleika Ariana Grande í Manchester árið 2017, hefur verið dæmdur í 55 ára fangelsi. Hann var dæmdur fyrir að hjálpa bróður sínum, Salman Abedi, við árásina en 22 dóu í árásinni og hundruð særðust.
Hashem, sem er 23 ára gamall, var dæmdur sekur í mars og þá meðal annars fyrir 22 morð, samkvæmt frétt Sky News. Hann hjálpaði bróður sínum að verða sér út um sprengiefni og að undirbúa árásina, sem var framkvæmd í stuðningi við Íslamska ríkið.
Mánuði fyrir árásina fór Hashem til Líbíu. Hann var þó handtekinn í kjölfar árásarinnar og framseldur til Bretlands síðasta sumar.
BREAKING: Hashem Abedi, the brother of Manchester Arena bomber Salman Abedi, has been sentenced to at least 55 years in prison for his part in the atrocity.
— SkyNews (@SkyNews) August 20, 2020
Read more here: https://t.co/ipKdWWWs1j pic.twitter.com/XIFoWbKPzJ
Hashem neitaði að fara í dómsal í morgun, þrátt fyrir að hann hafi verið fluttur í dómshúsið frá Belmarsh fangelsinu.
Í dómsal í gær, fyrir refsiákvörðunina, mæltu fjölskyldumeðlimir fólks sem dó í árásinni. Þau sögðu frá sorg þeirra og skaðanum sem árásin olli. Aðrir sem lifðu árásina af en særðust sögðu einnig sögu sína.
Einhverjir sögðust hafa þjáðst af samviskubiti yfir því að hafa lifað af á meðan aðrir gerðu það ekki og aðrir sögðust alla tíð síðan hafa verið lafandi hræddir við fólk með bakpoka um borð í lestum og strætisvögnum.