Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, mun taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu um næstu mánaðamót.
Grímur Hergeirsson mun verða tímabundið settur í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum frá 1. september til 1. nóvember og Margrét Kristín Pálsdóttir lögfræðingur mun gegna stöðu aðstoðarlögreglustjóra embættisins á sama tímabili.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að flutningurinn muni gefa ráðuneytinu og lögreglu færi á að nýta sérþekkingu og reynslu Ólafs Helga á sviði landamæravörslu næstu árin, þá sérstaklega þegar kemur að Schengen samstarfinu.
Styr hefur staðið um störf Ólafs Helga á Suðunesjum undanfarið en Ólafur Helgi átti þrjú ár eftir í embætti. Hann verður 67 ára í haust og verður reglum samkvæmt af láta af störfum þegar hann er sjötugur.
Greint var frá því í fréttum í sumar að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði rætt við Ólaf Helga að hann myndi láta af störfum.
Í svari hennar til fréttastofu í júlí sagði hún málið vera til meðferðar og unnið væri að lausn svo starfsemi embættisins yrði áfram sinnt með eðlilegum hætti.