Óhjákvæmilega munu skilaboð frá Almannavörnum ætluð farþegum sem koma með flugi frá útlöndum til Akureyrar á morgun rata til íbúa á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Þar segir að SMS-skeyti frá Almannavörnum sé væntanlegt á morgun einhvern tímann á bilinu frá klukkan tíu að morgni til hálf tólf að kvöldi. Á símum komi fram að sendandi sé 1.1.2.
Skeytið inniheludr upplýsingar varðandi viðbrögð við Kórónaveirunni (COVID-19) sem á upptök í Kína og hefur dregið þúsundir til bana.
„Óhjákvæmilega fá íbúar, sem og aðrir, á Akureyri SMS-boð með skilaboðum. Reynt verður að þrengja svæðið, þ.e. að umhverfi flugvallarins eins og hægt er. Sendar sem verða virkjaðir til að senda þessi skilaboð eru á Akureyrarkirkju, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Halllandi, gengt Akureyri.“
Áréttað er að um upplýsingaskilaboð sé að ræða. Sambærileg skilaboð eru send út í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
„Gera má ráð fyrir því að þessi skilaboð verði send út þegar flugvélar sem að koma erlendis frá eru að lenda á Akureyri meðan við erum á óvissustigi almannavarna við Kórónaveirunni,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.