Flugvallarstjóra Reykjavíkurflugvallar, viðburðarstjóra og aðstoðarkonu forstjóra hjá Isavia var sagt upp störfum í dag. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Vísi að fyrirtækið sé í skipulagsbreytingum. Samtals hefur fimm verið sagt upp í febrúar og þar af þremur á síðustu dögum. Heildarfjöldi starfsmanna hjá Isavia er um 1300 manns.
Auk þess var starfsmannastjóra á Keflavíkurflugvelli sagt upp störfum. Fyrir jól fengu tveir framkvæmdastjórar á Keflavíkurflugvelli uppsagnarbréf.
Ingólfur Gissurarson, fráfarandi flugvallarstjóri Reykjavíkurflugvallar, segir að uppsögnin hafi komið sér jafnmikið í opna skjöldu í morgun og öðrum. Miklar breytingar séu vissulega í gangi hjá fyrirtækinu. Þetta sé partur af lífinu og hann haldi áfram veginn.
Isavia hefur verið skipt upp í móðurfélag sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar og stoðdeildir. Tvö dótturfélög hafa verið stofnuð um innanlandsflugvelli annars vegar og flugleiðsögukerfi á Norður-Atlantshafi hins vegar. Forstjóri Isavia hefur sagt skiptinguna í þeim tilgangi að skýra línur og veita rekstrareiningum aukið sjálfstæði.