Viðskipti innlent

Sýn mun stefna Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri og krefst milljarðs

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ingibjörg Pálmadóttir er eigandi 365 og átti áður Fréttablaðið.
Ingibjörg Pálmadóttir er eigandi 365 og átti áður Fréttablaðið. Vísir/Vilhelm

Sýn hf. hefur falið lögmanni sínum að undirbúa höfðun dómsmáls á hendur hjónunum Ingibjörgu Pálmadóttur og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, 365 miðlum hf. og Torgi ehf. Á grundvelli samkeppnisákvæða í kaupsamningi Sýnar við 365. Krafa Sýnar hljóðar upp á 1,14 milljarða króna auk verðbóta. Þetta kemur fram í ársreikningi Sýnar fyrir 2019.

Í mars 2017 keypti Sýn stóran hluta af eignum 365 miðla, en meðal þeirra eru fjölmiðlar á borð við Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjan, FM957, X-ið og Vísir. Sýn telur að samkeppnisákvæði í kaupsamningi milli aðila hafi verið brotin. Torg ehf. fer með rekstur Fréttablaðsins í dag.

Í desember á síðasta ári ritaði Sýn hjónunum bréf, sem einnig var stílað á 365 og Torg, þar sem er lýst þeirri skoðun að tilteknir þættir í starfsemi vefmiðilsins frettabladid.is bryti í bága við áðurnefnd samkeppnisákvæði, sem aðilar hafi samþykkt við undirritun kaupsamnings.

Í ársreikningi Sýnar kemur fram að litið sé svo á að brot á samkeppnisákvæðunum feli í sér rétt til þess að krefjast dagsekta upp á fimm milljónir króna, að viðbættum verðbótum. Því sé gerð krafa um greiðslu 1.140 milljóna króna auk verðbóta.

„Af hálfu Ingibjargar, Jóns Ásgeirs og 365 hf. var kröfunni mótmælt með bréfi 20. des. 2019. Sýn hf. hefur falið lögmanni að undirbúa höfðun dómsmáls til heimtu þessarar kröfu og má búast við því að það verði höfðað á næstu vikum,“ segir í ársreikningnum.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×