Leeds United vann góðan útisigur á Hull í dag þegar liðin mættust í hádeginu í ensku b-deildinni. Lokatölur urðu 4-0 fyrir Leeds og er þetta fjórði sigur þeirra í röð í deildinni. Leeds situr í öðru sæti Championship-deildarinnar og er í harðri baráttu um að komast upp í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili.
Luke Ayling kom Leeds yfir strax á 5. mínútu. Staðan var 1-0 fyrir Leeds í hálfleik en Pablo Hernandez bætti við öðru marki Leeds strax á annarri mínútu seinni hálfleiks.
Tyler Roberts kom Leedsurum í 3-0 á 81. mínútu eftir flotta sókn. Hann var svo aftur á ferðinni þremur mínútum síðar þegar hann innsiglaði 4-0 sigur með skalla.
Leeds er eins og áður kom fram í 2. sæti, einu stigi eftir West Brom sem á leik til góða.