Fótbolti

Juventus ætlar að klófesta Guardiola og leyfir honum að velja sér samning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Juventus ætlar að bjóða Guardiola gull og græna skóga.
Juventus ætlar að bjóða Guardiola gull og græna skóga. vísir/getty

Juventus ætlar að reyna að fá Pep Guardiola frá Manchester City í sumar, sama hvað það kostar. The Sun greinir frá.

Forráðamenn Juventus eru ekki vissir um að Maurizio Sarri sé rétti maðurinn til að stýra liðinu og vilja fá Guardiola til að taka við af honum.

Peningar eru engin fyrirstaða fyrir Juventus sem er meira að segja tilbúið að leyfa Guardiola að velja sér samning og hvað hann fái í laun.

Talið er að Guardiola fái í kringum 15 milljónir punda í árslaun hjá City sem hann hefur tvisvar sinnum gert að Englandsmeisturum.

Guardiola hefur aldrei þjálfað á Ítalíu en lék þar um tíma með Roma og Brescia.

Juventus, sem hefur orðið ítalskur meistari átta sinnum í röð, er í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á eftir Inter.

Sarri tók við Juventus í sumar eftir eitt tímabil við stjórnvölinn hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×