Stærð hrygningarstofns loðnu samkvæmt mælingum í janúar var um 64 þúsund tonn. Er það langt undir þeim mörkum í gildandi aflareglu sem þarf að ná svo Hafrannsóknastofnun geti ráðlagt veiðar.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar en þar segir að matið sé bráðabirgðamat byggt á mælingum þriggja skipa, RS Árna Friðrikssonar, ásamt loðnuskipunum Hákoni EA-148 og Polar Amaroq.
„Þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður náðist með samstilltu átaki þriggja mæliskipa og tveggja leitarskipa, heildaryfirferð frá Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og þaðan norður um og suður fyrir Víkurál út af Vestfjörðum. Hafís hindraði mjög yfirferð í Grænlandssundi,“ segir á vef Hafrannsóknunarstofnunar.

Mælingar á stofninum hófust aftur á laugardaginn. Polar Amaroq byrjaði þá yfirferð suðaustur af landinu og mun Aðalsteinn Jónsson SU-011 koma inn í þær mælingar fyrir austan á morgun.
RS Árni Friðriksson mun halda til mælinga í dag vestur fyrir land og mæla til móts við hin skipin. Gert er ráð fyrir að þessar mælingar geti staðið yfir fram í að minnsta kosti miðjan mánuðinn.
Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þau samfélög sem mest treysta á loðnuveiðar, enda er áætlað að loðnuvertíð geti skilað fimmtán til tuttugu milljarða króna útflutningsverðmæti. Þetta eru tekjur sem einkum lenda í þeim byggðum sem vinna loðnuna; með heilfrystingu, hrognavinnslu og loðnubræðslu.
Hafrannsóknarstofnun ráðlagði engar loðnuveiðar á síðasta ári sem var mikið högg fyrir mörg sjávarútvegsfyrirtæki.