Maður sem var á brimbretti við strönd Ástralíu stökk af brimbretti sínu og kýldi hákarl, sem ráðist hafði á eiginkonu hans skammt undan, þar til hákarlinn sleppti taki af konunni.
Frá þessu er greint á vef BBC. Þar segir að Chantelle Doyle hafi verið á brimbretti á Shelly-strönd í Nýju Suður-Wales í Ástralíu þegar hákarlinn réðst á hana og beit hana í hægri fótlegginn. Þá hafi eiginmaður hennar, Mark Rapley, stokkið af brimbretti sínu, tekið hákarlinn taki og kýlt hann uns hann uns hann sleppti takinu. Síðan hafi Rapley hjálpað eiginkonu sinni í land.
Doyle var í kjölfarið flutt með sjúkraflugi á spítala en hákarlinn vann talsverðan skaða á hægri fótlegg hennar. Ástand hennar var þó stöðugt.
Talið er að hákarlinn sem réðst á Doyle hafi verið um þriggja metra langur, ungur hvítháfur. Hvítháfar geta orðið meira en sex metra langir.
Andrew Beverley hjá sjúkraflutningastofnun Nýju Suður-Wales segir að vitni að árásinni hafi veitt Doyle skyndihjálp þegar henni hafði verið komið á þurrt land.