Innlent

Segir of margt fatlað fólk búa á úreltum sambýlum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Landsamtaka Þroskahjálp segir ýmsar brotalamir í kefinu þegar kemur að búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk.
Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Landsamtaka Þroskahjálp segir ýmsar brotalamir í kefinu þegar kemur að búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk.

Formaður Landsamtakanna Þroskahjálpar segir að ef stjórnvöld vilji forðast að þurfa að greiða fólki með fötlun sanngirnisbætur í framtíðinni þurfi að bæta verulega aðbúnað og aðgengi þess að húsnæði. Alltof margir búi ennþá í úreltu húsnæði og hafi beðið í áraraðir eftir að komast á eigið heimili.

Forstöðumaður á sambýli fyrir fólk með fötlun sagði frá því í gær að heimilið væri úrelt og uppfyllti ekki lög og reglur um aðbúnað fólksins. Þrír af fjórum íbúum þess voru áður á Kópavogshæli og hafa fengið sanngirnisbætur vegna slæms aðbúnaðar þar. 

Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Landsamtakanna Þroskahjálpar segir að of margir fatlaðir einstaklingar búi á úreltum sambýlum.

„Við höfum séð töluvert um það að fólk býr á úreltum sambýlum. Við höfum verið meðvituð um það í lögum að það á að leggja gamaldags sambýli niður og bjóða fólki uppá aðra búsetukosti þar sem það getur notið meira frelsis og einkalífs,“ segir Bryndís. 

Í lögum um fatlaða kemur fram að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir. Bryndís segir að afar hægt hafi gengið að framfylgja þessu ákvæði.

„Sveitarfélög virðast hafa sjálfdæmi um hvernig þau fylgja þessu ákvæði og það eru ekki til neinar leiðbeiningar um það hvað það eigi að taka langan tíma sem er auðvitað bagalegt,“ segir Bryndís. 

Hún segir mikilvægt að greiða úr þegar úr þessum málum vilji stjórnvöld forðast að greiða sanngirnisbætur til fatlaðra síðar meir. 

„Ef þetta verður ekki lagað er hætta á því að stjórnvöld þurfi mögulega að greiða sanngirnisbætur síðar meir. Upplýsingar sem við höfum frá rétttindagæslumönnum eru þannig að það má furðu sæta að ekki sé gripið inní. Þeir hafa engin úrræði í lögum. Það var sett á stofnun í Félagsmálaráðuneytinu sem á að hafa eftirlit með þessum málaflokki og ég tel að hún virki ekki nógu vel. Aðgerðir sem þarf að grípa þegar til eru máttlausar og hægar. Það eru engar áætlanir til af hálfu ráðuneytisins,“ segir Bryndís. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×