Danir þurfa að treysta á Íslendinga í lokaumferðinni á morgun til þess að komast áfram í milliriðla á Evrópumótinu í handbolta. Dönsku blaðamennirnir hópuðust í kringum fyrirliða íslenska landsliðsins, Guðjón Val Sigurðsson, á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.
Ekkert nema íslenskur sigur dugar Dönum til að enda ofar í töflunni en Ungverjar. Dönsku blaðamennirnir reyndu að fá Guðjón Val til að lofa því að íslenska landsliðið myndi hjálpa Dönum á morgun.
Spørgsmål om Danmark irriterede islandsk stjerne: I tror, alt handler om jer Islandske Guðjón Valur Sigurðsson vil ikke koncentrere sig om, at Island onsdag aften kan give Danmark en hjælpende hånd. https://t.co/5dtmLMaGSy
— SportenDK (@SportenDK) January 14, 2020
„Við erum ekki með örlög Dana í okkar höndum. Þið látið eins og þetta snúist allt um ykkur. Við þurfum að spila á móti Ungverjum. Við erum að fara að berjast við Ungverja og sá leikur snýst ekki um Danmörk,“ sagði Guðjón Valur við TV 2 SPORT.
„Ég ber mikla virðingu fyrir leikmönnum og þjálfurum Dana og fyrir Danmörku sem þjóð. Ég elskaði að búa þarna en þessi leikur snýst bara um tvö stig fyrir okkur. Ef við vinnum þennan leik þá verðum við virkilega ánægðir. Það er það eina sem ég get sagt,“ sagði Guðjón Valur.
„Því miður fyrir Dani þá þurfa þeir að treysta á aðra en við ætlum að einbeita okkur að okkur sjálfum,“ sagði Guðjón Valur.
Leikur Íslands og Ungverjalands fer fram á undan leik Dana. Danir gæti því verið úr leik áður en leikur þeirra við Rússa hefst.