Yfirvöld í Ástralíu óttast að breytingar á vindátt í ríkinu Nýja Suður-Wales muni valda aukinni útbreiðslu skógar- og gróðurelda sem nú geisa á svæðinu. Vindhraðinn náði allt að 128 kílómetra hraða á klukkustund, eða 35 metrum á sekúndu, í dag.
Í nágrannaríkinu Victoriu hafa herþyrlur verið kallað út til þess að hjálpa til við að flytja fólk á hættusvæðum frá heimilum sínum.
Eldarnir hafa orðið minnst 23 að bana síðan í september, og meira en tólf hundruð heimili hafa eyðilagst. Þá hafa milljónir hektara af landi brunnið. Ekkert af ríkjum Ástralíu hefur farið algerlega varhluta af áhrifum eldanna, en ástandið er einna verst í Nýja Suður-Wales.
BBC hefur eftir Shane Fitzsimmons, slökkviliðsstjóra ríkisins, að búast megi við óstöðugu ástandi næstu daga.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur tilkynnt að 3000 hermenn hafi verið sendir á vettvang til þess að aðstoða við slökkvistarf. Morrison hefur af mörgum verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við þeim hamförum sem nú ganga yfir land hans.
Í dag var hann til að mynda gagnrýndur eftir að hann birti myndband á Twitter-síðu sinni þar sem fram kom hvernig brugðist yrði við ástandinu, en undir myndbandinu mátti heyra létta tónlist, sem mörgum þótti óviðeigandi í ljósi þess hve alvarlegt ástandið er. Myndbandið má sjá hér að neðan.
We’re putting more Defence Force boots on the ground, more planes in the sky, more ships to sea, and more trucks to roll in to support the bushfire fighting effort and recovery as part of our co-ordinated response to these terrible #bushfirespic.twitter.com/UiOeYB2jnv
— Scott Morrison (@ScottMorrisonMP) January 4, 2020