Andhryðjuverkadeild lögreglunnar í París rannsakar hnífaárás sem átti sér stað í bænum Villejuif nærri París í gær. Ekki þykir útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Þetta kemur fram í frétt á vef breska ríkisútvarpsins, þar sem vitnað er í yfirlýsingu frá dómsmálaráðherra Frakklands, Nicole Belloubet.
Árásarmaðurinn, sem eingöngu hefur verið nefndur sem Nathan C, stakk í gær mann til bana og særði tvo aðra, áður en lögregla kom á vettvang og skaut hann til bana.
Í tilkynningu dómsmálaráðherrans kom fram að komið hafi í ljós að árásarmaðurinn hafi verið „öfgasinni,“ án þess að það sé útskýrt nánar.
„Þessi nýju gögn réttlæta því að rannsóknin haldi áfram á þeim grundvelli að morðið og tilraunir til manndrápa hafi tengst hryðjuverkastarfsemi,“ segir einnig í tilkynningunni.
Þá hafa yfirvöld, nánar til tekið saksóknarar í málinu, staðfest að maðurinn hafi glímt við geðræn vandamál, og hafi sætt geðrænni meðferð á spítala. Hann hafi síðast yfirgefið spítala í mái á síðasta ári, og ári síðar hafi hann hætt að taka lyf við veikindum sínum.
Maðurinn sem lést í árásinni var í göngutúr með eiginkonu sinni þegar árásin varð. Bæjarstjóri Villejuif, Franck Le Bohellec, segir manninn hafa látist við að vernda eiginkonu sína, en hún særðist alvarlega í árásinni.
