Körfubolti

NBA stjarna sér eftir því að hafa hegðað sér eins og þrettán ára strákur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Love í leik með Cleveland Cavaliers en samningur hans rennur ekki út fyrr en sumarið 2022.
Kevin Love í leik með Cleveland Cavaliers en samningur hans rennur ekki út fyrr en sumarið 2022. Getty/ Jason Miller

Bandaríski körfuboltamaðurinn Kevin Love er orðinn mjög pirraður á ástandinu hjá Cleveland Cavaliers en fyrr í vetur komu fréttir af því að félagið var að skoða það að skipta honum til annars liðs í NBA-deildinni.

Ekkert hefur orðið að þeim skiptum ennþá og það gengur lítið hjá liði Cleveland Cavaliers inn á vellinum. Pirringur Love og slæmt gengi var greinilega farið að hafa mikil áhrif á leikmanninn.

Kevin Love brann síðan tvisvar sinnum yfir á dögunum, fyrst á bekknum í leik í Toronto og svo í tapi á móti Oklahoma City Thunder á sunnudaginn. Hann reifst líka við framkvæmdastjóri Cavaliers, Koby Altman, fyrir Thunder leikinn.



Í leiknum sjálfum veifaði Love margoft höndunum til að sýna óánægju sína með liðsfélagana, snéri síðan baki í andstæðing í varnarleiknum og henti boltanum í liðsfélaga.

Kevin Love baðst afsökunar á hegðun sinni fyrir leikinn á móti Detorit Pistons í nótt þar sem Love var með 30 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 80 prósent skotnýtingu (12 af 15) en lið hans tapaði enn einum leiknum.



„Ég hegðaði mér ekki eins og 31 árs karlmaður heldur eins og 13 ára krakki. Þetta skrifast bara á mig,“ sagði Kevin Love.



Kevin Love vildi ekki gera mikið úr rifrildinu við Koby Altman og segir að það sé allt í góðu á milli þeirra. Þeir hafi ekki verið að öskra á hvorn annan heldur aðeins rætt málin af hreinskilni.

Skömmu eftir að LeBron James yfirgaf Cleveland Cavaliers sumarið 2018 þá skrifaði Kevin Love nýjan fjögurra ára samning sem skilaði honum 120 milljónum dollara eða 14,8 milljörðum íslenskra króna.

Love segist ekki sjá eftir því að hafa skrifað undir þennan samning og segist hafa alla tíð viljað vera hjá Cleveland Cavaliers. Hann talaði einnig um að það gæti eitthvað gerst á næstu vikum en menn verði bara að bíða og sjá

Love hefur einnig rætt áður opinberlega um baráttu sína við þunglyndi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×