Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segist hafa fengið í hendurnar sömu gögn og fréttamaðurinn Helgi Seljan, en þau voru notuð til þess að vinna umfjöllun í Kastljósi árið 2012 þar sem því var velt upp hvort Samherji hefði mögulega brotið gegn gjaldeyrislögum.
Þetta kemur fram á vef Stundarinnar þar sem rætt er við Guðmund.
Samherji sakaði Helga, í sérstökum vefþætti á Youtube, um að hafa falsað skýrslu Verðlagsstofu sem Helgi og Kastljós byggði umfjöllun sína á. Samherji dró jafnvel í efa að hún hafi nokkurn tímann verið gerð.
Skýrslan fjallar um samanburð á útflutningsverði á karfa til Þýskalands. Guðmundur, sem sat í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, segist geta staðfest að hann fékk umrædda skýrslu frá Verðlagsstofu. Hann hafi jafnframt skrifað grein í tímarit VM sem byggði á skýrslunni þar sem fjallað var um verðmun á sjávarafla milli Íslands og annarra landa.
Helgi Seljan segist ekki hafa átt neitt við skýrsluna fyrir utan að afmá persónugreinanlegar upplýsingar sem gætu vísað til heimildarmanns hans.