Innlent

Ekkert ferðaveður á Vestfjörðum fram á þriðjudagskvöld

Kjartan Kjartansson skrifar
Verst á veðrið að verða á Vestfjörðum næstu daga. Myndin er úr safni.
Verst á veðrið að verða á Vestfjörðum næstu daga. Myndin er úr safni. Vísir/Samúel Karl

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun vegna norðaustan stórhríðar á Vestfjörðum sem á að hefjast í nótt og standa fram á morgundaginn. Ekkert ferðaveður verður þar frá því í nótt og fram á þriðjudag. Gular viðvaranir taka gildi fyrir aðra landshluta á mánudagskvöld og fram á þriðjudagskvöld.

Gul viðvörun vegna sunnan hríðar tók gildi fyrir Vestfirði og Breiðafjörð klukkan sjö í morgun til hádegis. Í nótt er svo búist við norðaustan stormi eða roki, 20-25 metrum á sekúndu með talsverðri snjókomu á Vestfjörðum. Varað er við miklum skafrenningi með lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Appelsínugul viðvörun tekur gildi vegna þess klukkan fjögur í nótt og stendur til klukkan 14:00 á mánudag.

Snemma kvölds á mánudag tekur svo gul viðvörun við á Vestfjörðum sem gildir til klukkan 18:00 á þriðjudag. Þá er enn gert ráð fyrir stormi eða roki og miklum skafrenningi og slæmum akstursskilyrðum.

Í öðrum landshlutum taka gular viðvaranir gildi í nótt, fyrst á landinu sunnanverðu en síðar á Austurlandi og á landinu norðanverðu. Varað er við suðaustan hríð með snjókomu eða slyddu eða rigningu við sjávarmál. Búast má við lélegu skyggni, skafrenningi á heiðum og versnandi akstursskilyrðum. Viðvaranir utan Vestfjarða gilda fram á mánudagsmorgun eða hádegi eftir landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×