Sport

Ásdís sænskur bikarmeistari í spjótkasti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud hefur átt magnaðan feril sem er að enda í haust. Hún er þó ekki hætt að safna að sér verðlaunum.
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud hefur átt magnaðan feril sem er að enda í haust. Hún er þó ekki hætt að safna að sér verðlaunum. Getty/Ian Walton

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud keppti í gær í spjótkasti í sænsku bikarkeppninni. Ásdís kastaði lengst 58,14 metra, setti mótsmet og vann til gullverðlauna.

Frjálsíþróttasambandið segir frá gullverðlaunum Ásdísar á heimasíðu sinni.

Íslandsmet Ásdísar er kast upp á 63,43 metra í Joensuu í Finnlandi i júlímánuði fyrir rúmum þremur árum. Það var í sjöunda skiptið sem hún bætti Íslandsmetið sitt.

Ásdís hefur lengt kastað 61,24 metra á þessu tímabili en það var á móti í Svíþjóð í júní.

Ásdís keppir fyrir Spårvägens Friidrottsklubb og fór mótið fram á hennar heimavelli. Næstu helgi verður svo sænska meistaramótið þar sem Ásdís verður aftur á meðal keppenda.

Þetta er síðasta tímabil Ásdísar á ferlinum en hún hefur tilkynnt að hún ætli að hætta í haust.

Ásdís ætlaði að enda ferillinn á því að keppa á sínum fjórðu Ólympíuleikum en ekkert varð að því þegar leikunum var frestað um eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×