Velferðarsjóður barna hefur ákveðið að styrkja forvarnar- og fræðsluverkefnin Vopnabúrið og Við sem lið sem Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmaður í handbolta hleypir af stokkunum í grunnskólum í Kópavogi í haust. Kári Stefánsson stjórnarformaður sjóðsins tilkynnti um styrkinn, sem hljóðar upp á 4,8 milljónir króna, í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar nú fyrir hádegi.
Í tilkynningu segir að verkefnið eigi að hefjast með fyrirlestrum fyrir nemendur, kennara og foreldra í haust en í október fari af stað námskeið sem séu sniðin að þörfum unglinga í áhættuhópum.
Velferðarsjóður barna var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Allt stofnfé sjóðsins kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Sjóðurinn hefur úthlutað um 1100 milljónum til hagsmunamála barna frá stofnun, að því er segir í tilkynningu.