Villt tígrisdýr hafa á síðustu áratugum orðið færri með hverju árinu en nú virðast þau vera að sækja í sig veðrið ef marka má nýjar tölur frá dýraverndarhópnum WWF. Sérfræðingar hafa meira að segja sagt hraða fjölgun þeirra stórmerkilega.
Árið 2010 voru um 3.200 tígrisdýr villt í náttúrunni í heiminum öllum. Þeim hefur þó fjölgað töluvert á undanförnum árum í fimm ríkjum – Indlandi, Kína, Rússlandi, Nepal og Bútan. Talið er að á milli 2.600 og 3.350 villt tígrisdýr séu í Indlandi, sem er um þriðjungur allra tígrisdýra í heiminum.
Í Nepal, nágrannaríki Indlands, hefur tígrisdýrum fjölgað meira en tvöfalt frá árinu 2009. Þá voru þau 121 en nú eru þau 235, aðeins áratug síðar. Sama má segja um Rússland, Bútan og Kína þar sem tígrísdýr hafa sést á vappi í auknu mæli sem talið er benda til þess að þeim fjölgi.
Beccy May, framkvæmdastjóri WWF á Bretlandi, segir fréttirnar afar góðar en að að tígrisdýrum stafi enn ógn. Til þess að þau þrífist vel þurfi þau nóg pláss, vatn og fæðu og rekja megi fjölgun dýranna til fjölgunar verndaðra svæða. Ástæða þess að þeim hafi fækkað síðustu hundrað árin sé breytt umhverfi þeirra og að þrengt hafi verið verulega að dýrunum.