Sport

Borga fúlgur fjár til að horfa á hafnaboltaleiki á húsþökum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áhorfendur fylgjast með leik Chicago Cubs og Milwaukee Brewers í MLB-deildinni af húsþökum við Wrigley Field í Chicago.
Áhorfendur fylgjast með leik Chicago Cubs og Milwaukee Brewers í MLB-deildinni af húsþökum við Wrigley Field í Chicago. getty/Justin Casterline

Hafnaboltaáhugafólki gefst kostur á að horfa á leiki á Wrigley Field í Chicago á húsþökum í nágrenni vallarins.

Enginn áhorfendur mega vera á leikjum í MLB-deildinni í Bandaríkjunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Þrátt fyrir það getur fólk verið viðstatt leiki þótt það sé ekki jafn nálægt vellinum og venjulega. Hafnaboltaáhugafólki býðst nú að horfa á leiki á Wrigley Field, heimavelli Chicago Cubs, á þökum húsa í nágrenninu.

Það kostar þó sitt en miðar í þessa óvenjulegu áhorfendaaðstöðu kosta á bilinu 300 til 440 Bandaríkjadollara sem samsvarar um 40 til 60 þúsund íslenskra króna. Venjulega kosta miðar á Wrigley Field 150 Bandaríkjadollara, eða rúmlega 20 þúsund íslenskra króna.

Hafnaboltageggjarar láta hátt verð ekki stoppa sig en að sögn starfsmanns Chicago Cubs hafa 90 prósent af þeim miðum sem í boði eru þegar selst.

Hægt er að fylgjast með leikjum á sextán húsþökum í nágrenni Wrigley Field. Hægt er að selja 40 til 50 miða á hverju húsþaki.

Klippa: Horfa á leiki á húsþökum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×