Kínverjar skutu í nótt á loft geimfari sem mun flytja könnunarfar til plánetunnar Mars. Könnunarfarið er sexhjóla vélknúinn sjálfstýrður bíll sem á að kanna skilyrði á plánetunni en búist er við að geimfarið komist á sporbaug um Mars í febrúar næstkomandi.
Ekki stendur þó til að koma könnunarfarinu, sem kallast Tianwen - 1 niður á fast land Mars fyrr en tveimur til þremur mánuðum síðar, eftir að búið verður að gera ýmis próf á umhverfi plánetunnar.
Kínverska verkefnið er annað af þremur geimskotum til Mars á aðeins ellefu daga tímabili.
Á mánudag skutu Sameinuðu Arabísku Furstadæmin eldflaug til Mars. Eftir viku ætlar Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, að senda nýtt könnunarfar, Perseverence, til rauðu plánetunnar.