Golf

Justin Thomas efstur fyrir lokahringinn

Ísak Hallmundarson skrifar
Justin Thomas er efstur fyrir lokahringinn.
Justin Thomas er efstur fyrir lokahringinn. getty/Sam Greenwood

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas leiðir fyrir lokahringinn á Workday Charity Open mótinu í golfi. Hinn norski Viktor Hovland er í öðru sæti.

Thomas hefur spilað stöðugt og gott golf alla helgina en í gær lék hann á 66 höggum, sex undir pari, líkt og daginn áður. Hann er samtals á sextán höggum undir pari á mótinu og hefur ekki fengið einn einasta skolla á 54 holum.

Viktor Hovland er næstur á eftir Thomas, á fjórtán höggum undir pari, en hann lék einnig á 66 höggum í gær. Colin Morikawa sem var efstur fyrir gærdaginn lék á pari í gær og er í þriðja sæti á þrettán höggum undir pari.

Rickie Fowler er ásamt fjórum öðrum kylfingum á níu höggum undir pari í 8. sæti á meðan Phil Mickelson átti slæman dag í gær þar sem hann lék á tveimur höggum yfir pari og er núna samtals á pari á mótinu í 59. sæti. 

Bein útsending frá lokahringnum hefst kl. 17:00 á Stöð 2 Golf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×