Turn Notre Dame-dómkirkjunnar í París, sem fór illa í bruna í apríl á síðasta ári, verður endurbyggður í sinni upprunalegu mynd.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti um þetta í gær, en í Frakklandi höfðu skapast miklar umræður um hvort turninn yrði endurbyggður í nútímalegri stíl. Sjálfur hafði Macron ýjað að því að hann væri hlynntur því.
Macron sagðist þá vilja sjá verkinu lokið fyrir 2024, en þá verða Ólympíuleikarnir haldnir í París.
Í tilkynningu frá frönsku forsetahöllinni sagði að helsta kappsmál Macron þegar kæmi að endurbyggingu turnsins væri að forðast í lengstu lög að tefja framkvæmdir og flækja þær. Ganga þyrfti frá málinu eins fljótt og auðið er.
Þá kom fram í tilkynningunni að hönnun nútímalegri turns væri talin geta tafið framkvæmdir.
