Það var mikið rætt um dómarana efstu síðustu umferð í Pepsi Max-deild karla og því er ekki úr vegi að kíkja á hvaða dómarar dæma leiki 5. umferðarinnar.
Jóhannes Valgeirsson, fyrrum besti dómari Íslands, lýsti m.a. áhyggjum sínum á dómgæslunni hér heima í Sportpakkanum í fyrrakvöld.
Stórleikina í þessari umferð, leik Víkings og Vals annars vegar og Breiðabliks og FH hins vegar, dæma þeir Jóhann Ingi Jónsson og Ívar Orri Kristjánsson. Jóhann Ingi verður með flautuna í Víkinni en Ívar Orri í Kópavogi.
Báðir dómararnir voru mikið ræddir eftir síðustu umferð. Ívar Orri hafði í nægu að snúast úti á Seltjarnanesi er hann dæmdi eina vítaspyrnu og rautt spjald en hefði mögulega átt að dæma tvær vítaspyrnur og flauta hendi í jöfnunarmarki HK.
Jóhann Ingi dæmdi tvær vítaspyrnur á Akureyri við litla hrifningu Blika og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, lýsti yfir áhyggjum sínum af dómgæslunni í viðtali eftir leikinn.
Pétur Guðmundsson er með flautuna á Akranesi og Einar Ingi Jóhannsson, sem var fjórði dómari í hitaleik KR og Víkinga, verður með völdin í Grafarvogi.
Annað kvöld er svo leikur Fylkis og KA en Elías Ingi Árnason dæmir þann leik.
Víkingur - Valur: Dómari leiksins er Jóhann Ingi Jónsson. Aðstoðardómarar eru þeir Eðvarð Eðvarðsson og Eysteinn Hrafnkelsson. Elías Ingi Árnason er fjórði dómari.
ÍA - HK: Dómari leiksins er Pétur Guðmundsson. Aðstoðardómarar eru þeir Oddur Helgi Guðmundsson, Andri Vigfússon. Helgi Mikael Jónsson er fjórði dómari.
Fjölnir - Grótta: Dómari leiksins er Einar Ingi Jóhannsson. Aðstoðardómarar eru þeir Bryngeir Valdimarsson og Gunnar Helgason. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er fjórði dómari.
Breiðablik - FH: Dómari leiksins er Ívar Orri Kristjánsson. Aðstoðardómarar eru þeir Birkir Sigurðarson og Gylfi Már Sigurðsson. Jóhann Gunnar Guðmundsson er fjórði dómari.
Fylkir - KA: Dómari leiksins er Elías Ingi Árnason. Aðstoðardómarar eru þeir Egill Guðvarður Guðlaugsson og Kristján Már Ólafs. Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson er fjórði dómari.
Allir leikir kvöldsins verða í beinni í Boltavaktinni á Vísi. Leikur Víkings og Vals sem og Breiðabliks og FH verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.