Ferðalög, útivera, grill, sól, hiti, rigning og stundum rok. Nú er sumarið brostið á og munu flestir eyða því innanlands í ár. Ferðafyrirtæki hafa í auknum mæli opnað fyrir það að Íslendingar geti ferðast með dýrin sín með sér innanlands og því líklega aldrei fleiri hundar á faraldsfæti en í ár.

Hvað þarf að hafa í huga?
Ýmis atriði er gott að hafa í huga áður en lagst er í ferðalög með heimilishundinn en eitt af því fyrsta er að kanna hvort hundurinn sé leyfilegur á áfangastað.
Má hafa hund á staðnum?
Mjög misjafnt er hvort gististaðir leyfi hunda, hvort það fylgi því aukalegur kostnaður að mæta með hund eða hvort einhverjar takmarkanir séu á stærð hundsins eða kröfur gerðar um umgengni með hundinn.
Hversu langt er ferðalagið?
Annað sem gott er að hugsa um er ferðamátinn og tímalengd ferðalagsins. Á að ferðast í bíl, með flugi eða ferju eða jafnvel öllu þessu þrennu og hvað er hægt að bjóða dýrinu upp á langt ferðalag án hléa? Hefur hundinn sýnt einkenni bílveiki á fyrri ferðalögum?

Hundar þola fæstir að vera marga klukkutíma sleitulaust á ferðalagi svo gott er að gera ráð fyrir að stoppin gætu orðið aðeins fleiri til að rétta úr sér, pissa á nokkrum vel völdum stöðum og ekki síst að fá vatnssopa. Nauðsynlegt er að missa hundinn ekki lausan úr bílnum heldur gæta þess að hann sé í taum í ókunnu umhverfi.
Öryggi á ferð
Þegar ferðast er með hunda þarf að gæta þess að vel lofti um þá í bílnum og að þeir séu örugglega festir í búri eða í belti og best er ef búið er að æfa hundinn í styttri ferðum áður en lagst er í langferðir. Aldrei má skilja hund eftir í lokuðum bíl í hita og sól.
Ráð við bílveiki
Bílveiki háir sumum hundum en fyrir suma hefur verið hægt að draga úr einkennum með því að hundurinn hafi gott nag í bílnum t.d. Kong með frosinni fyllingu og fyrir aðra hefur virkað betur að gefa slakandi töflur sem geta einnig dregið úr einkennum bílveiki.
Allar nánari upplýsingar er að finna á Gæludýr.is.