Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málum 11 einstaklinga sem grunaðir voru um brot á sóttvarnalögum með því að hafa ekki fylgt reglum um sóttkví er lokið. Allir nema einn hafa verið sektaðir vegna brotanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Málin varða rúmenska ríkisborgara sem komu hingað til lands sem ferðamenn 5. og 8. júní og áttu að vera í sóttkví í 14 daga en sinntu því ekki.
Auk sektarinnar hefur Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að vísa sjö þessara einstaklinga úr landi á grundvelli almannaheilbrigðis, að því er segir í tilkynningu. Greint var frá brottvísuninni fyrr í dag.
Þá tekur lögregla sérstaklega fram að embættið hafði engin önnur brot umræddra einstaklinga til rannsóknar.