Reiðir stuðningsmenn Benfica köstuðu steinum í rútu liðsins eftir markalaust jafntefli við Tondela í Ljósvangi í Lissabon í portúgölsku úrvalsdeildinni í gær. Tveir þurftu aðhlynningu á sjúkrahúsi eftir árásina.
Keppni í portúgölsku úrvalsdeildinni hófst á ný í gær eftir tæplega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins.
Benfica náði aðeins jafntefli á heimavelli gegn Tondela sem er í neðri helmingi deildarinnar. Þetta var þriðja jafntefli Benfica í röð.
Stuðningsmenn Benfica létu reiði sína í ljós með því að grýta liðsrútuna eftir leik. Julian Weigl og Andrija Zivkovic fengu glerbrot í andlitið. Hlúð var að þeim á æfingasvæði Benfica og þeir svo fluttir á spítala í nágrenninu.
Ef Benfica hefði unnið Tondela í gær hefði liðið náð þriggja stiga forskoti á Porto á toppi deildarinnar. Porto laut í lægra haldi fyrir Famalicao, 2-1, í gær.
Benfica varð portúgalskur meistari í 37. sinn á síðasta tímabili.