Ný rannsókn á fólki sem smitaðist af kórónuveirunni virðist leiða í ljós að fólk með of háan blóðþrýsting er tvisvar sinnum líklegra til að láta lífið af völdum sjúkdómsins en fólk sem er með eðlilegan þrýsting.
Rannsóknin var framkvæmd á sjúkrahúsi í Kína og að henni komu kínverskir og írskir vísindamenn en greint er frá niðurstöðum hennar í læknaritinu European Heart Journal í dag.
Um 30 prósent þeirra sem lagðir voru inn á sjúkrahúsið á ákveðnu tímabili, 850 manns, þjáðust af of háum blóðþrýstingi og úr þeim hópi létu fjögur prósent lífið.
Í hópnum sem var með eðlilegan þrýsting, rúmlega tvö þúsund manns, var dánartalan mun lægri eða rétt rúmlega eitt prósent.