Fótbolti

Cristiano Ronaldo kom til baka í betra formi en hann var í fyrir COVID-19 hlé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo leit vel út á æfingu með Juventus liðinu og allar mælingar sýndu að hann kom til baka í frábæru formi.
Cristiano Ronaldo leit vel út á æfingu með Juventus liðinu og allar mælingar sýndu að hann kom til baka í frábæru formi. Getty/Daniele Badolato

Knattspyrnumenn í þremur af fimm bestu deildum Evrópu hafa snúið aftur til æfinga á síðustu dögum og það eru auðvitað liðnir næstum því þrír mánuðir síðan að þeir spiluðu síðast fótboltaleik.

Liðin í Englandi, á Ítalíu og á Spáni, þurftu því nokkrar vikur til að koma mannskapnum sínum aftur í form. Það er samt einn leikmaður sem virðist hafa komið sér í betra form úr sóttkví sinni.

Portúgalska knattspyrnugoðið Cristiano Ronaldo var svo ákafur að koma aftur til baka að hann mætti fjórum klukkutímum fyrir áætlaðan æfingatíma. Liðsfélagar hans misstu því alveg af því að sjá í hversu frábæru formi kappinn er.

Ronaldo var settur í hin ýmsu próf til að kanna stöðuna á honum og samkvæmt frétt spænska blaðsins AS þá voru niðurstöðurnar ekkert slor. Í ljós kom að Cristiano Ronaldo kom til baka í betra líkamlegu formi en hann var í fyrir COVID-19 hlé.

Eins og aðdáendur hans hafa fengið að fylgjast aðeins með á samfélagsmiðlum þá hefur Ronaldo æft vel í hléinu. Þær myndir hafa greinilega verið veruleikinn en ekki einhver sýndarmennska.

Ronaldo er 35 ára gamall en hefur gefið lítið eftir inn á vellinum. Hann sýnir líka með þessum metnaði að hann er ekkert að fara neitt á næstunni.

Einkaþjálfararnir eiga í mestum vandræðunum að koma í veg fyrir það að hann æfi hreinlega of mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×