Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg og landeiganda, hyggjast friðlýsa Lundey í Kollafirði. Með friðlýsingunni yrði eyjan friðland með það að meginmarkmiði að vernda mikilvæga sjófuglabyggð og sérstætt gróðurlendi, líkt og fram kemur í tilkynningu.
Lundey liggur á innanverðum Kollafirði, milli Geldinganess og Brimness á Kjalarnesi. Eyjan er um 400 m löng og 150 m breidd þar sem hún er breiðust. Lægst er hún að austanverðu en hækkar til vesturs og er hún um 14 m.y.s þar sem hún er hæst. Klettabelti stendur í sjó fram og stórgrýtt fjara að neðan. Eyjan er að mestu úr grágrýti, algróin og stórþýfð.

Eyjan hefur fyrst og fremst hátt verndargildi vegna stórrar sjófuglabyggðar, einkum lunda, en á eyjunni verpa hátt í tíu þúsund pör. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar Íslands er lundi flokkaður sem tegund í bráðri hættu. Auk þess er svæðið mikilvægt bú- og varpsvæði fleiri mikilvægra fuglategunda s.s. ritu, æður og teistu sem einnig eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Í Lundey er að finna sérstætt gróðurlendi en á tveimur stöðum á svæðinu vaxa blettir með gulstör sem blandast við haugarfa. Nálægð eyjarinnar við höfuðborgarsvæðið eykur þá mikilvægi hennar, bæði til fræðslu og náttúruskoðunar ferðamanna.