Icelandair hefur þegar hafið sölu á flugmiðum til Kaupmannahafnar. Dönsk stjórnvöld tilkynntu í hádeginu að ferðamenn frá völdum löndum fái aftur að sækja Danmörku heim frá 15. júní. Þó mega þeir ekki gista í Kaupmannahöfn.
Tæplega tveimur tímum eftir að Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, hóf upp raust sína í hádeginu auglýsti Icelandair að félagið myndi hefja daglegt áætlunarflug til Kaupmannahafnar þann 15. júní. Von sé á frekari upplýsingum fljótlega.
Dómsmálaráðherra Danmerkur, Nick Hækkerup, greindi frá því á fundinum í hádeginu að ekki aðeins verði ferðamönnum meinað að gista í Kaupamannahöfn heldur einnig sveitarfélaginu Fredriksberg. Fólki megi þó gjarnan fara þangað í dagsferðir. Íslendingar sem fljúga til Kaupmannahafnar með Icelandair þurfa því að bóka sér gistingu fyrir utan borgina.
Í frétt DR er haft eftir dómsmálaráðherranum að ferðamenn þurfi að sýna fram á pappíra um hvar þeir ætli að gista til að hægt sé að fylgjast með að enginn gisti í Kaupmannahöfn. Þurfi þeir að sýna fram á gistingu í sex nætur hið minnsta á hóteli, tjaldsvæði eða öðru.