LATAM, stærsta flugfélag Suður-Ameríku, hefur sótt um gjaldþrotavernd í Bandaríkjunum, en líkt og með önnur flugfélög hefur heimsfaraldur kórónuveirunnar leikið flugfélagið grátt.
Roberto Alvo, forstjóri félagsins, greindi frá ákvörðuninni að sækja um gjaldþrotavernd í morgun.
LATAM er með höfuðstöðvar sínar í Chile og dótturfélög í Argentínu, Brasilíu, Kólumbíu, Ekvador, Paragvæ og Perú. Starfsmenn félagsins eru um 40 þúsund talsins.
Einnig hefur verið sótt um gjaldþrotavernd fyrir dótturfélög LATAM í Perú, Ekvador og Kólumbíu. Flugfélagið gerir ráð fyrir að enn sem komið er verði áfram flogið með vélum flugfélagsins á meðan verið er að endurskipuleggja reksturinn.
LATAM flýgur til 145 áfangastaða í 26 löndum, en fyrir faraldur voru flugferðir félagsins að jafnaði um 1.400 á dag.