Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar því að Bandaríkin hætti fjárveitingum til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um ókomna tíð vegna viðbragða stofnunarinnar við faraldri kórónuveiru. Þetta kemur fram í bréfi sem Trump sendi Tedros Ghebreyesus, yfirmanni WHO.
Trump birti bréfið á Twitter-reikningi sínum í nótt. Þar sakar hann WHO um að ganga erinda kínverskra stjórnvalda og lýsir yfir áhyggjum af „ískyggilegri vöntun á sjálfstæði“ stofnunarinnar frá Kína.
This is the letter sent to Dr. Tedros of the World Health Organization. It is self-explanatory! pic.twitter.com/pF2kzPUpDv
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 19, 2020
Forsetinn gagnrýnir WHO jafnframt harðlega fyrir það hvernig brugðist hefur verið við faraldrinum allt frá því hans varð fyrst vart í kínversku borginni Wuhan í desember. Þannig hafi stofnunin m.a. beðið með að lýsa yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar að tilstuðlan Xi Jinping, forseta Kína. „Síendurtekin mistök“ stofnunarinnar undir stjórn Ghebreyesus hafi reynst heiminum „gríðarlega dýrkeypt“.
Trump setur WHO að lokum afarkosti í bréfinu. Hann segir að stofnunin verði að sýna fram á að hún sé ekki undir járnhæl kínverskra stjórnvalda og gefur henni þrjátíu daga frest til að „bæta ráð sitt“, ellegar muni Bandaríkin hætta fjárframlögum til stofnunarinnar um ókomna tíð og jafnframt endurskoða aðild sína að henni.

Trump stöðvaði tímabundið fjárveitingar til WHO 14. apríl síðastliðinn, að sögn vegna þess hvernig stofnunin tók á faraldrinum. Bandaríkin eru einn helsti bakhjarl stofnunarinnar en fjárveitingar ríkisins til hennar námu um tæplega 15 prósent af heildarframlögum í fyrra.
Trump hefur margítrekað gagnrýnt viðbrögð kínverskra stjórnvalda, sem og WHO, við faraldrinum, einkum síðustu daga og vikur.
Trump og stjórn hans hafa sjálf sætt mikilli gagnrýni fyrir að aðhafast lítið sem ekkert til að undirbúa sig fyrir mögulega farsótt í Bandaríkjunum eftir að ferðatakmörkunum á Kína var komið á fyrr í vor.
Þannig var ekki ráðist í umfangsmiklar skimanir fyrir veirunni og alríkisstjórnin trassaði að viða að sér nauðsynlegum búnaði sem fyrirséð var að yrði þörf á eins og öndunarvélum og hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk.