Lögregla á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú alvarlega líkamsárás sem gerð var í húsi í Hafnarfirði í byrjun þessa mánaðar. Þar veittist hópur manna að þremur mönnum með grófum hætti og talið er að bareflum hafi verið beitt við árásina. Fjórir hafa verið handteknir í þágu rannsóknarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
Einn þolenda árásarinnar var fluttur á slysadeild en hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi.
Rannsókn málsins snýr einnig að frelsissviptingu og broti á vopnalögum. Þá hefur lögregla gert húsleit á nokkrum stöðum í tengslum við málið.
Lögregla kveðst í tilkynningu ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.