Nökkvi Fjalar Orrason, samfélagsmiðlastjarna og frumkvöðull, var ráðinn til að bæta andlega þáttinn hjá leikmönnum og þjálfurum HK í handbolta karla með góðum árangri.
Þetta segir Brynjar Freyr Valsteinsson, formaður handknattleiksdeildar HK, í Sportinu í dag. HK-ingar voru án stiga í Olís-deildinni þegar Nökkvi kom til starfa en unnu þrjá leiki eftir áramót og enduðu í 11. sæti. Liðið leikur í næstefstu deild á næstu leiktíð.
„Við fórum með ákveðna prufu í gang með Nökkva í andlegri þjálfun. Hann er búinn að vera að mennta sig sjálfur í því. Sjálfsmenntaður reyndar, en mjög fær. Við fórum með karlaliðið okkar í þessa prufu frá því í desember og út tímabilið. Ástæðan var einföld, við vorum án stiga og í vandræðum og þurftum að fara aðrar leiðir,“ segir Brynjar.
„Ég held að fyrsti tíminn hjá honum hafi verið sjö klukkustundir, með leikmönnum og þjálfurum. Hann kom á alla leiki og vann með leikmönnum í allan vetur, og það skilaði sér virkilega vel. Við sáum mun á spilamennsku og aðallega í sjálfstrausti, ekki bara innan vallar heldur líka utan. Hann lagði mikla vinnu í þetta og við erum rosalega þakklátir honum fyrir að koma svona inn og vinna þetta með okkur,“ segir Brynjar.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.