Fótbolti

Ronaldo fær enga sérmeðferð til æfinga í heimabænum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Cristiano Ronaldo þarf að halda sér í standi.
Cristiano Ronaldo þarf að halda sér í standi. vísir/EPA

Fjölmargir íþróttamenn um allan heim reyna nú eftir fremsta megni að halda sér í æfingu þrátt fyrir takmarkanir vegna kórónaveirufaraldursins sem skekur heimsbyggðina um þessar mundir.

Fremsta íþróttafólk heims er engin undantekning á því og portúgalska ofurstjarnan Cristiano Ronaldo hefur ekki farið varhluta af því að sóttvarnalög gilda sama hvað þú heitir.

Ronaldo, sem leikur fyrir Juventus, sneri heim til Portúgals eftir að ítalska úrvalsdeildin var stöðvuð og hefur dvalið í heimabæ sínum á Madeira undanfarnar vikur. Þar hefur hann sést nýta sér aðstöðu portúgalska B-deildarliðsins CD Nacional.

„Ronaldo fær engin sérstök úrræði til að æfa. Hann hefur rétt á að æfa svo lengi sem hann virðir reglurnar sem gilda til jafns um hann og alla aðra bæjarbúa. Það er öllum frjálst að yfirgefa heimili sín á meðan það er ekki verið að efna til samkomna og ef fólk heldur hæfilegri fjarlægð. Ronaldo hefur fylgt því eftir því sem við best vitum,“ segir Pedro Ramos, yfirmaður heilbrigðismála á Madeira.

„Þó hann sé besti knattspyrnumaður í heimi verður hann að fylgja sömu reglum og aðrir. Við erum öll í þessu saman. Sem besti leikmaður heims er hann fyrirmynd og hann hefur verið góð fyrirmynd,“ segir Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×