Vél Icelandair sem flutti sautján tonn af lækningabúnaði frá Sjanghæ lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan 18:30 í kvöld. Búnaðurinn var pantaður fyrir nokkru síðan þegar ljóst var í hvað stefndi vegna kórónuveirufaraldursins en um er að ræða samvinnuverkefni heilbrigðisyfirvalda, almannavarna, Icelandair og utanríkisráðuneytisins.
Sjá einnig: Icelandair sækir sautján tonn af lækningavörum til Kína
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ferðina hafa gengið vel en vélin lagði af stað til Sjanghæ í gærmorgun. Flugið út hafi tekið rúmlega tólf og hálfan tíma og svo hafi hún stoppað þar í sjö tíma á meðan verið var að hlaða vélina.

Flugið aftur heim til Íslands tók svo um þrettán klukkustundir og lenti vélin líkt og fyrr sagði klukkan 18:30 á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Flogið var í beinum legg fram og til baka.
Á upplýsingafundi almannavarna í fyrradag sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að Landspítalinn muni svo fá lagerinn og dreifa honum ef þörf er á.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra engan skort vera á hlífðarbúnaði hér á landi. Með þessu væri einfaldlega verið að tryggja ábyrgða birgðastöðu svo sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir gætu átt greitt aðgengi að þessum mikilvægu vörum.