Barnavernd Reykjavíkur merkir fjölgun á tilkynningum til stofnunarinnar í nýliðnum marsmánuði, ekki síst frá almenningi. „Fram eftir mánuði voru tilkynningar til barnaverndar færri en venjulegt er, en síðari hluta mánaðarins jókst fjöldi þeirra umtalsvert,“ segir til útskýringar í tilkynningu frá Barnavernd Reykjavíkur.
Samkomubann vegna kórónuveirunnar tók gildi um miðjan marsmánuð og var hert þann 24. mars. Samhliða því hefur fólk verið hvatt til að vera á varðbergi og koma ábendingum og tilkynningum beint til yfirvalda ef grunur leikur á einhvers konar vanrækslu eða ofbeldi.
Tilkynningum fjölgaði ekki síst í eftirfarandi flokkum í mars, að sögn stofnunarinnar:
11 tilkynningar frá börnum, en þær hafa verið á bilinu 1-3 í marsmánuði undanfarin ár
·60 tilkynningar frá nágrönnum/almennum borgurum, en þær hafa verið á bilinu 22-39 undanfarin ár
·21 tilkynning um heimilisofbeldi, en að meðaltali berast um 18 tilkynningar um heimilisofbeldi í hverjum mánuði
·71 tilkynning þar sem barn var í yfirvofandi hættu, en þær hafa verið á bilinu 28-42 í marsmánuði undanfarin ár.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið helsti tilkynnandi til Barnaverndar Reykjavíkur í gegnum tíðina, en skólar og skólaþjónusta, ásamt velferðar- og heilbrigðisþjónustu hafa bætt sig töluvert síðastliðinn áratug, með aukningu frá 62% til 118%. Finna má frekari upplýsingar um tölfræði í starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur á vefsíðu Barnaverndar og á tölfræðivef velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.