Utanríkisráðherra Ungverjalands hefur kallað sendiherra Íslands gagnvart Ungverjalandi og aðra sendiherra Norðurlandanna á teppið í utanríkisráðuneyti landsins í Búdapest vegna bréfs sem utanríkisráðherrar Norðurlandanna sendu Evrópuráðinu í sameiningu þann 6. maí síðastliðinn.
Í bréfinu lýsa þeir yfir áhyggjum af þróuninni í Ungverjalandi með því að taka sérstaklega undir orð sem finna má í bréfi aðalritara Evrópuráðsins sem sent var forsætisráðherranum Viktor Orbán í marsmánuði.
Völd ungverska forsætisráðherrans Viktor Orbán hafa verið aukin á tímum faraldurs kórónuveirunnar á þann veg að hann getur nú tekið ákvarðanir með tilskipunum og þannig sniðgengið þing landsins.
Norrænu ráðherrarnir leggja í bréfi sínu áherslu á að í neyðarástandi verði grundvallargildi réttarríkisins að koma fyrst.
Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, skrifaði á Facebook í gærkvöldi að landið þurfi ekki „auma og hræsnafulla“ leiðsögn að utan. Eigi Norðurlöndin að einbeita sér að sínu.
Þórir Ibsen, sendiherra með aðsetur á Íslandi, er sendiherra Íslands gagnvart Ungverjalandi.
Að neðan má sjá bréf norrænu utanríkisráðherranna til Evrópuráðsins.
