Viðskipti innlent

Sam­keppnis­eftir­litið veitir ferða­þjónustunni undan­þágu vegna veirunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur veitt ferðaþjónustunni undanþágu sem gerir ferðaþjónustunni betur kleift að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að í gær hafi Samkeppniseftirlitinu borist erindi frá Samtökum í ferðaþjónustu (SAF) þar sem óskað var eftir undanþágu frá banni við samkeppnishindrandi aðgerðum og samráði fyrirtækja. Væri það gert til að ferðaþjónustuaðilar gætu auðveldar brugðist við breyttum aðstæðum vegna COVID-19.

„Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag veitt SAF umbeðna undanþágu, sem gerir þeim betur kleift grípa til aðgerða sem ætlað er að verja eða auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu.

Meðal annars gerir þetta SAF kleift að standa fyrir umfjöllun um leiðir til að auðvelda viðskiptavinum aðildarfyrirtækja að taka ákvarðanir um kaup á ferðaþjónustu og auka svigrúm viðskiptavina til að bregðast við áhættu af útbreiðslu COVID-19 og annarri þróun sem henni tengist,“ segir í tilkynningunni.

Undanþágan er veitt með ákveðnum skilyrðum, meðal annars að umfjöllun samtakanna eða aðildarfyrirtækja taki ekki til verðlagningar á þjónustu þeirra og að aðgerðir verði tímabundnar. Nánar má lesa um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×