Vegagerðin hefur skrifað undir samning við Ístak hf. um smíði tveggja nýrra brúa í Suðursveit, yfir Steinavötn og Fellsá. Ístak átti lægsta boð upp á 770 milljónir króna, sem var 1,2 prósentum eða níu milljónum króna yfir áætluðum verktakakostnaði, en hann var 761 milljón króna.
Athygli vakti að engin tilboð bárust þegar smíði nýrrar brúar yfir Steinavötn var fyrst boðin út í vor. Þó var þetta eitt stærsta útboðsverk ársins og það langstærsta í brúarsmíði. Útboð fór fram að nýju í haust og bárust þá sex tilboð.

Brúin yfir Steinavötn skemmdist haustið 2017 þegar grófst undan einum stöpli brúarinnar í vatnavöxtum. Brúin var komin til ára sinna, 55 ára gömul og 102 metra löng. Þurfti að hafa hraðar hendur og byggja bráðabirgðabrú, en það var gert á innan við viku, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.
Í verkinu felst smíði nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá ásamt uppbyggingu á Hringvegi í Suðursveit á tveimur köflum beggja megin brúa. Veita skal ám undir nýjar brýr og eftir að vegtenging er komin á þær skal fjarlægja bráðabirgðabrýr og –vegi og gera leiðigarða við enda brúar yfir Steinavötn. Verkinu á að vera lokið 1. apríl 2021.