Fjölmennt lið lögreglu hefur verið kallað út að Norðurbakka í Hafnarfirði. Töluverður viðbúnaður er á svæðinu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er verið að reyna að aðstoða einstakling sem glímir við veikindi.
Sérsveitarmenn eru á meðal þeirra sem eru mættir í Norðurbakka og hafa nágrannar deilt áhyggjum sínum í samtali við fréttastofu.
Samkvæmt lýsingum vitnis af svæðinu kom lögregla á svæðið upp úr klukkan 16:30 og eru þeirra á meðal sérsveitarmenn sem virðast vopnaðir byssu og að minnsta kosti einn með skjöld.
Uppfært klukkan 18:25:
Aðgerðum lögreglu við Norðurbakka lauk um sexleytið. Eftirfarandi tilkynning barst frá lögreglu um málið um klukkan hálf sjö:
Á fjórða tímanum í dag barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um mann í ójafnvægi í íbúð fjölbýlishúss í Hafnarfirði, en óttast var að maðurinn kynni að fara sér að voða. Viðkomandi var ósamvinnufús á vettvangi og nokkurn tíma tók að miðla málum áður en öryggi hans var tryggt. Maðurinn var síðan færður á sjúkrastofnun til frekari aðhlynningar. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið.
Hér að neðan má sjá myndir frá vettvangi við Norðurbakka í kvöld.



